CNN segir að frumvarpið hafi verið samþykkt með 29 atkvæðum gegn 20. Það fer nú til fulltrúadeildar þingsins en reiknað er með að það verði samþykkt þar á næstu vikum.
Samkvæmt frumvarpinu þurfa kjósendur að vera 65 ára eða eldri, fjarverandi frá kjördæmi sínu, bundnir af trúarlegum helgidegi, bundnir við stöðuga umönnun fatlaðs einstaklings eða tilneyddir til að sinna starfi sem felur í sér „að vernda heilbrigði, líf eða öryggi almennings“ allan þann tíma sem kjörstaðir eru opnir eða vera staðsettir erlendis á vegum hersins til að eiga rétt á að kjósa utan kjörfundar. Þetta er mikil breyting á kosningalögum ríkisins sem Repúblikanar komu í gegnum þingið 2005 en samkvæmt þeim geta allir kosið utan kjörfundar og þurfa ekki að tilgreina neina ástæðu. Einnig eru kröfur um skilríki, sem fólk þarf að framvísa, hertar.
Margir muna eflaust að Georgía var eitt helsta átakaríkið í forsetakosningunum í nóvember en þá sigraði Joe Biden í ríkinu. Donald Trump, þáverandi forseti, og stuðningsmenn hans höfðu þá hátt um meint kosningasvindl og kenndu utankjörfundarkosningu um niðurstöðuna og sögðu hana bjóða upp á kosningasvik.
Víðar um landið reyna Repúblikanar nú að breyta kosningalögum til að halda Demókrötum frá því að kjósa en það er oft fólk úr minnihlutahópum, sem styður yfirleitt Demókrata, sem kýs utan kjörfundar. CNN segir að í rúmlega 40 ríkjum hafi Repúblikanar að undanförnu kynnt lagafrumvörp sem takmarka möguleika fólks til að skrá sig á kjörskrá.
Mike Dugan, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Georgíuríkis, sagði að nauðsynlegt sé að draga úr utankjörfundaratkvæðagreiðslum til að draga úr kostnaði við meðhöndlun og talningu atkvæða, draga úr álagi á starfsfólk kjörstjórna og tryggja að utankjörfundaratkvæði séu talin.
Í síðustu viku samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings frumvarp sem miðar að því að taka á tilraunum Repúblikana til að takmarka möguleika fólks á að skrá sig á kjörskrá og annað það er kemur í veg fyrir að fólk geti kosið. Lögin banna ríkjunum að setja skorður á utankjörfundaratkvæðagreiðslur, eins og til dæmis bréfkosningu, og þau þurfa að láta óháðar kjörstjórnir ákveða kjördæmamörk en nú eru það stjórnmálamenn sem ákveða þau og færa fram og til baka eftir því hvernig vindar blása hverju sinni.