Það er því líflegt í kringum spænsku konungsfjölskylduna þessa dagana. El Mundo segir að Juan Carlos, sem er 83 ára, hafi í hyggju að koma „heim“ í tengslum við kappsiglingu í Ria de Pontevedra þann 13. mars. Það var einmitt í siglingaklúbbnum í Sanzenzo sem hann eyddi síðustu dögunum áður en hann fór til Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
El Mundo segir að reiknað sé með að konungurinn fyrrverandi stoppi stutt og sé ekki að snúa alkominn aftur til Spánar.
Spænskir fjölmiðlar segja að Felipe VI, núverandi konungur og sonur Juan Carlos, sé ekki hrifinn af þessum fyrirætlunum föður síns og vilji ekki að hann snúi aftur til Spánar fyrr en hann hefur gert upp skuldir sínar við spænska skattinn. Spænska ríkisstjórnin hefur sömu skoðun á málinu.
Juan Carlos hefur síðustu mánuði greitt 5 milljónir evra til skattsins til að reyna að lagfæra orðspor sitt. Lögmaður hans segir að þessar greiðslur séu vegna vangoldinna skatta af ferðalögum og öðrum útgjöldum sem Juan Carlos hafi fengið greitt úr sjóði en ekki átt rétt á. Saksóknarar hafa lengi verið með málefni Juan Carlos til rannsóknar en hann er grunaður um að hafa tekið við mútum í tengslum við ýmsa samningagerð, þar á meðal við Sádi-Arabíu um háhraðalest. Svissnesk yfirvöld eru einnig að rannsaka það mál.
Juan Carlos var konungur á Spáni í 39 ár eða til 2014 þegar hann afsalaði sér krúnunni og Felipe tók við embættinu.