Afbrigðið hefur náð sér vel á strik í héraðinu og hefur það hvergi annars staðar í Evrópu náð viðlíka útbreiðslu og er nú algengasta afbrigði veirunnar.
Ef afbrigðið nær að dreifast um Evrópu verður það alvarlegt og mjög slæmt skref aftur á bak í baráttunni við heimsfaraldurinn. Það er meira smitandi en önnur afbrigði og getur einnig verið ónæmara fyrir bóluefnum en önnur afbrigði veirunnar.
Allir fullorðnir íbúar héraðsins, um 60.000, fá nú boð um að verða bólusettir gegn veirunni og taka þar með þátt í tilraunaverkefni. Reiknað er með að hefja bólusetningar á miðvikudaginn.
Günther Platter, leiðtogi héraðsins, sagði í samtali við New York Times að markmiðið með þessu sé að stöðva útbreiðslu afbrigðisins eða gera alveg út af við það. „Við viljum vernda íbúana gegn þessu afbrigði,“ sagði hann.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, hefur beðið ESB um auka skammta af bóluefnum til að hægt sé að stöðva útbreiðslu afbrigðisins. Framkvæmdastjórn ESB hefur heimilað að 100.000 aukaskammtar verði sendir til héraðsins gegn því að alþjóðlegur hópur vísindamanna fái að fylgjast með í návígi hvort bóluefnið frá Pfizer/BioNTech virki gegn afbrigðinu.