Von der Leyen skýrði frá þessu í samtali við þýsku dagblöðin Stuttgart Zeitung og Stuttgarter Nachrichten í dag. Hún sagðist reikna með að ESB fái 100 milljónir skammta á mánuði á öðrum ársfjórðungi eða um 300 milljónir skammta í heildina. „Frá apríl getur fjöldinn tvöfaldast miðað við áætlanir framleiðendanna og af því að fleiri bóluefni eru við það að vera samþykkt til notkunar,“ sagði hún.
Þrjú bóluefni hafa fengið samþykkt Evrópsku lyfjastofnunarinnar, þau eru frá Pfizer/BioNTech, Moderna og AstraZeneca. Reiknað er með að lyfjastofnunin mæli með því á fimmtudaginn að bóluefnið frá Johnson & Johnson fái markaðsleyfi í Evrópu. Það er síðan framkvæmdastjórn ESB sem veitir endanlegt leyfi. Bóluefnið frá Johnson & Johnson er auðveldara í meðförum en hin bóluefnin, það er hægt að geyma það í venjulegum ísskáp og það þarf aðeins einn skammt af því en af hinum bóluefnunum þarf að gefa tvo skammta.
ESB hefur samið um kaup á tæplega 2,6 milljörðum skammta af bóluefnum frá ýmsum framleiðendum. Þar af eru allt að 400 milljónir skammta frá Johnson & Johnson.