Þegar Meghan lýsti brúðkaupsdegi þeirra hjóna sagði hún að það hafi verið eins og að vera utan líkamans og fylgjast með úr fjarlægð. ”Ég held að við höfum bæði verið meðvituð um að þrátt fyrir að þetta væri ekki dagurinn okkar þá hafi þessi dagur verið skipulagður fyrir heiminn,” sagði hún og bætti við að hún hafi gifst inn í konungsfjölskylduna án þess að hafa í raun vitað mikið um hana áður og hafi eiginlega verið frekar barnaleg í viðhorfi sínu til fjölskyldunnar. Þegar hún sagði að þetta hafi í raun ekki verið dagurinn þeirra þá átti hún við að þau gengu í hjónaband þremur dögum áður en hin stóra opinbera athöfn fór fram en því skýrðu hjónin frá í viðtalinu.
Þegar Oprah spurði Meghan hvort það væri satt að hún hefði komið hertogaynjunni af Duchess (Katrínu eiginkonu Vilhjálms prins) til að gráta þegar Charlotte prinsessa var að undirbúa brúðkaup sitt sagði hún að sá atburður hafi verið „vendipunktur“ og að það hafi í raun verið Katrín sem fékk hana til að gráta. Hún sagðist ekki vilja „tala niðrandi“ um nokkurn mann og sagði að Katrín hafi beðið sig afsökunar og sent sér blóm. Hún sagði að þeim hafi ekki lent saman og það sé ekki „sanngjarnt“ að fara út í smáatriði varðandi málið og að það væri „erfitt að jafna sig“ á að vera sökuð um eitthvað sem hún gerði ekki.
Þegar talið barst að syni þeirra hjóna, Archie, og þeirri staðreynd að hann fær ekki titil sem prins og þeirri staðreynd að hann er litaður sagði Meghan að sumir innan konungsfjölskyldunnar hafi strax frá því að ljóst var að hún var barnshafandi gert þeim hjónum ljóst að barnið, sem ekki var vitað um kynið á þá, myndi ekki fá titil sem prins eða prinsessa og að barnið myndi ekki njóta öryggisgæslu eins og aðrir í konungsfjölskyldunni í framtíðinni. Meghan vildi ekki segja hverjir sögðu þetta: „Ég held að það myndi skaða þá mjög mikið,“ sagði hún um viðkomandi.
Allt þetta hafði mikil áhrif á andlega líðan Meghan sem sagðist hafa íhugað að skaða sjálfa sig og jafnvel taka eigið líf. „Ég vildi bara ekki lifa lengur. Þetta voru raunverulegar og stöðugar hugsanir sem sóttu sífellt á mig. Ég man hvernig hann (Harry) tók utan um mig.“
Hún sagðist síðan hafa leitað til eldra fólks innan stofnunarinnar (hirðarinnar) til að biðja um hjálp. „Ég man þetta samtal eins og það hafi verið í gær, af því að þau sögðu að ég hefði alla þeirra samúð því þau sæju hversu hversu alvarlegt þetta væri en gætu ekkert gert til að hjálpa mér því ég væri ekki launaður starfsmaður stofnunarinnar. Þetta var ekkert val. Þetta voru tölvupóstar og ákall um aðstoð þar sem kom skýrt fram að ég hefði áhyggjur af andlegri velferð minni.“
Harry sagðist ekki hafa vitað hvað hann ætti að gera þegar Meghan sagði honum frá sjálfsvígshugsunum sínum. „Ég var ekki undir þetta búinn. Ég fór þá líka langt niður en ég vildi vera til staðar fyrir hana.“ Þegar Oprah spurði hann hvort hann hafði rætt þetta við fjölskyldu sína sagði hann að slíkt samtal myndi ekki fara fram innan konungsfjölskyldunnar. „Ég held að ég hafi skammast mín fyrir að játa þetta fyrir þeim. Ég veit ekki hvort tilfinningar þeirra og hugsanir voru eins og mínar. Ég hef ekki hugmynd um það. Þetta er mjög heftandi umhverfi sem mörg þeirra eru föst í.“
Meghan sagði að það þurfi að hafa í huga þegar rætt er um konungsfjölskylduna, sem er í sjálfu sér stofnun, að innan stofnunarinnar sé konungsfjölskyldan og síðan sé það fólkið sem sér um að reka stofnunina. Þetta séu tveir aðskildir hlutir og að það sé mikilvægt að geta greint á milli þeirra „af því að drottningin, til dæmis, hefur alltaf verið dásamleg við mig“ sagði hún.
Aðspurður sagði Harry að hann hefði ekki sagt skilið við konungsfjölskylduna og konunglegar skyldur sínar ef hann hefði ekki kynnst Meghan. Hann sagðist ekki hafa getað yfirgefið fjölskylduna því „ég var fastur. Ég sá enga leið út. Ég var fastur en vissi ekki að ég var fastur.“
Hann sagði jafnframt að aðrir fjölskyldumeðlimir væru fastir. „Faðir minn og bróðir, þeir eru fastir. Þeir fá ekki að fara,“ sagði hann.
Hvað varðar samband hans við föður sinn, Karl prins, sagði hann: „Mér finnst hann hafa brugðist mér því hann hefur gengið í gegnum svipaða hluti og hann veit hvað sársauki er, Archie er barnabarn hans. En samtímis mun ég alltaf elska hann en það er mikill sársauki í tengslum við það sem gerðist og ég mun halda áfram að hafa það sem eitt af forgangsverkefnum mínum að reyna að lagfæra samband okkar. En aðeins þau vita það sem þau vita eða það sem þeim er sagt.“
Hvað varðar sambandið við Vilhjálm prins sagði Harry að það væri ekki gott um þessar mundir en vonandi lækni tíminn öll sár.
Þegar hann var spurður hvort hann hefði blekkt drottninguna þegar hann tilkynnti að hann drægi sig í hlé frá konunglegum skyldum sagði Harry: „Nei, ég myndi aldrei blekkja ömmu mína, ég ber alltof mikla virðingu fyrir henni til að gera það.“