Ndrangheta er ekki nýbúin að koma sér fyrir á Ítalíu en segja má að ljós hafi runnið upp fyrir Þjóðverjum um tilvist hennar árið 2007. Þá voru sex menn skotnir til bana fyrir utan ítalska veitingastaðinn Da Bruno í Duisburg. Allir voru þeir skotnir í höfuðið. Lögreglan fann 55 skothylki á vettvangi. Saksóknari sagði að árásin hafi verið skipulögð eins og hernaðaraðgerð.
Fórnarlömbin, það yngsta 16 ára, og morðingjarnir komu frá San Luca í suðurhluta Ítalíu, þar ræður Ndrangheta ríkjum. Skömmu áður hafði kona, sem tilheyrði einni ætt mafíunnar, verið skotin til bana fyrir mistök. Það var maðurinn hennar sem átti að drepa. Morðin í Duisburg voru hefnd fyrir það.
Eftir þetta setti mafían á laggirnar sérstakt ráð sem hefur það mikilvæga hlutverk að tryggja að hinar ýmsu ættir eða greinar mafíunnar lendi ekki í átökum sín á milli, að minnsta kosti ekki opinberlega. Þetta er gert til að umheimurinn fái ekki veður af starfseminni. Það er aðeins á Ítalíu og í Þýskalandi sem mafían hefur komið svona ráði á laggirnar. Frankfurter Allgemeine Zeitung segir að þetta sýni vel hversu skipulögð mafían er í Þýskalandi. Lögreglan segir að minnst níu sitji í ráðinu og að það fundi að minnsta kosti einu sinni á ári. Formaðurinn er útnefndur af valdamestu fulltrúum mafíunnar í Þýskalandi.
Þýsk yfirvöld telja að um 20 hópar frá Ndrangheta starfi í Þýskalandi. Flestir í vestur- og suðurhluta landsins. Mafíumeðlimir hafa einnig fjárfest af krafti i veitingastöðum, ísbúðum og fasteignum í mörgum stórum borgum í fyrrum Austur-Þýskalandi.