Hún sagði að framkvæmdastjórnin muni leggja þetta til og vísaði þar til óska margra um að opnað verði fyrir ferðalög fólks á milli landa. Hún sagðist vonast til að á næstu mánuðum verði hægt að ljúka við tæknilegan undirbúning málsins.
Um stafrænt vegabréf verður væntanlega að ræða og til að það geti orðið að veruleika þurfa öll aðildarríkin að styðja hugmyndina sagði hún. Kórónuvegabréf mun sýna hvort búið er að bólusetja handhafa þess.
Með slíku vegabréfi verður hægt að opna meira fyrir ferðalög á milli aðildarríkja ESB því löndin geta þá gert kröfu um að fólk sýni vegabréfið þegar það kemur til landsins. ESB vinnur einnig að gerð kerfis þar sem aðildarríkin geta viðurkennt bólusetningarvottorð hvers annars.
Ekki er öruggt að öll aðildarríkin styðji þessar hugmyndir en vitað er að bæði Frakkar og Þjóðverjar eru hikandi við að gera kröfu um að fólk verði að framvísa kórónuvegabréfi þegar það ferðast á milli landa og sækir viðburði á borð við tónleika eða fer á veitingahús. Margir óttast að með slíku vegabréfi verði fólki skipt í tvo hópa, A og B.