Þetta kemur fram í tilkynningu frá British Antarctic Survey (BAS). BAS rekur Halley rannsóknarstöðina á Brunt íshellunni en hún er lokuð yfir veturinn og yfirgaf 12 manna starfslið hennar hana um miðjan febrúar.
Vísindamenn hafa átt von á því að risastór ísjaki myndi brotna frá íshellunni í nokkur ár því sprunga hafði myndast í 150 metra þykka íshelluna að sögn BAS. Ný sprunga byrjaði að myndast og færast í átt að gömlu sprungunni í nóvember og í janúar lengdist hún um einn kílómetra á dag. Á föstudaginn víkkaði sprungan síðan um nokkur hundruð metra og þá losnaði ísjakinn frá íshellunni.
BAS flutti rannsóknarstöð sína lengra inn á land fyrir fjórum árum í varúðarskyni og þar hefur aðeins verið starfsemi á sumrin frá 2017 því erfitt er að rýma stöðina á dimmum vetri.