Hann afplánar nú dóm í Þýskalandi fyrir nauðgun á 72 ára gamalli bandarískri konu í Portúgal 2005. Lögreglan hefur sagt að þau sönnunargögn, sem hún hefur í málinu, byggi ekki á því að lík Madeleine hafi fundist. En ekki er annað vitað en lögreglan vinni hörðum höndum að því að afla nægilegra sönnunargagna til að hægt verði að ákæra Christian B.
Discovery í Danmörku hefur gert heimildamyndaþáttaröð um hvarf Madeleine og heitir hún: „Grunaður: Madeleine McCann-málið“. Í þáttunum er reynt að kortleggja hvaða sönnunargögn lögreglan hefur og að draga upp betri og nákvæmari mynd af Christian B en gert hefur verið í fjölmiðlum til þessa. Í þriðja þættinum kemur fram að portúgalska lögreglan hafi að beiðni þeirrar þýsku leitað í brunni sem hefur ekki verið notaður árum saman.
Þetta gerðist aðeins mánuði eftir að tilkynnt var að Christian B. væri grunaður í málinu. Mário Lucas, bóndi sem býr nærri brunninum, sá þegar lögreglumenn komu til að rannsaka brunninn og leita í honum. Hann skýrir frá þessu í þættinum.
„Ég get ekki farið út í þetta í smáatriðum. Ég get staðfest að þetta byggir á upplýsingum sem við fengum frá Þýskalandi sem við sendum til portúgölsku lögreglunnar. En ég get ekki sagt meira um hvað býr að baki eða hvað fannst hugsanlega,“ segir Hans Christian Wolters, saksóknari í málinu, í þættinum.
Í þættinum kemur portúgölsk fréttakona einnig fram en hún hefur fylgst með málinu allt frá upphafi þess 2007. Hún segist sannfærð um að lögreglan hafi leitað að líki eða hlutum af líki því kafari hafi verið með í för.