Phys.org skýrir frá þessu. Fram kemur að Grady, sem er prófessor við Liverpool Hope háskólann, telji miklar líkur á að líf sé að finna annars staðar í vetrarbrautinni okkar. Hún telur einnig að í djúpum hellum á Mars geti líf verið að finna, líklega bakteríur. Þar þrífist líf því þar sleppi það við hættulega geisla sólarinnar. Vatn gætu þessar lífverur fengið úr ís sem sé undir jarðlögum.
„Hvað varðar líkurnar á að líf sé að finna utan jarðarinnar þá er næstum öruggt að líf er að finna undir ísnum á Evrópu,“ sagði hún að sögn phys.org.
Hún telur að lífverur á Evrópu geti verið mun þróaðri en bakteríur á Mars og hafi hugsanlega greind á við kolkrabba en þeir eru mjög greindir.
Hugsanlegt er talið að fljótandi vatn sé undir þykku íslaginu á Evrópu og þar gæti líf þrifist að mati Grady. Ísinn verndi lífið fyrir hættulegri geislun og árekstrum loftsteina.
Grady telur ekki að sólkerfið okkar sé eitthvað sérstakt eða öðruvísi en önnur sólkerfi og að þegar við förum að rannsaka aðrar stjörnur og vetrarbrautir munum við finna staði þar sem líf getur þrifist. „Ég held að það sé mjög líklegt að það sé líf annars staðar og ég tel mjög líklegt að það sé byggt upp á sama hátt og hér á jörðinni,“ sagði hún.