CNN skýrir frá þessu og segir að kínverskir ríkisfjölmiðlar hafi rekið áróður þar sem látnu hermennirnir eru sagðir vera píslarvotta. Á valdatíma Xi Jinping, forseta, hafa yfirvöld tekið hart á þeim sem gagnrýna þjóðhetjur eða gagnrýna opinbera afstöðu til þeirra.
Fyrir þremur árum voru lög samþykkt sem banna fólki að „móðga eða bera út róg um hetjur og píslarvotta“. Áður þurfti að reka einkamál vegna slíkra mála en með lögunum varð þetta refsivert og liggur allt að þriggja ára fangelsi við brotum á lögunum.
Átökin á landamærunum voru þau hörðustu í rúmlega 40 ár en bæði ríkin gera tilkall til yfirráða í Galwandalnum í Himalayafjöllum. Í átökunum í júní féllu að minnsta kosti 20 indverskir hermenn en Kínverjar skýrðu fyrst frá því í síðustu viku að fjórir hermenn úr þeirra röðum hefðu fallið. Nýlega bárust tíðindi af að bæði ríkin hefðu fallist á að kalla hermenn sína frá hinu umdeilda svæði til að forðast að til frekari átaka komi.