Fram kom að bíllinn sé búinn að senda 30 gígabæti af gögnum til jarðar auk 23.000 ljósmynda.
NASA birti fyrstu myndina frá bílnum nokkrum mínútum eftir að hann lenti eftir sjö mánaða ferðalag. Lendingin var gríðarlega flókin í framkvæmd og ekkert var hægt að gera héðan frá jörðinni til að hafa áhrif á ferlið vegna þess að það tekur útvarpsmerki tæplega 12 mínútur að berast á milli plánetanna. En allt gekk þetta upp eins og lagt var upp með og þetta rúmlega 2 milljarða dollara verkefni gat því haldið áfram.
Perseverance lenti í Jazero gígnum en þar var áður vatn. Ætlunin er að bora niður í jarðveginn og taka jarðvegssýni sem geta hugsanlega sýnt merki þess að líf hafi þrifist á Mars eða þrífist jafnvel enn.
19 myndavélar eru á bílnum og því er hægt að mynda landslagið á Mars meira og betur en nokkru sinni áður. Bíllinn er einnig með fullkomið stýrikerfi sem hjálpar honum að forðast steina og gil, margvíslegan vísindabúnað til rannsókna og einnig er lítil þyrla með í för en hún verður fyrsta flugfarið til að fljúga á annarri plánetu.
Jarðvegssýnin, sem verða tekin, verða ekki öll rannsökuð strax því þau verða sett í hylki sem verða innsigluð og skilin eftir á fyrir fram ákveðnum stað þar sem þau verða sótt síðar. Enn er unnið að útfærslu þess verkefnis og ekki er vitað hvenær það verður.
NASA hefur einnig birt fyrstu hljóðupptökuna frá Mars þar sem vindur heyrist blása.