Kenningin gengur út á að vetrarveðrið hafi í raun ekki verið raunverulegt heldur manngert og að á bak við það hafi enginn annar en Bill Gates, stofnandi Microsoft, staðið. Hann hafi sent þetta veður yfir ríkin til að kynda undir áhyggjur fólks um hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingarnar.
Kenningunni hefur mikið verið dreift á TikTok og undarleg myndbönd birt með. Nokkur myllumerki hafa sprottið upp í kringum kenninguna, til dæmis #governmetnsnow, þar sem því er haldið fram að snjókoman í Texas hafi verið af mannavöldum. Sumir hafa birt myndir af sér við að reyna að bræða snjó þessu til „sönnunar“.
Þegar snjórinn bráðnar ekki þegar eldur er borinn upp að honum telja sumir að þar sé komin sönnun þess að um manngert óveður og snjó hafi verið að ræða.
Í einu myndbandi sést kona halda kveikjara upp við snjókúlu og kenna Bill Gates og ríkisstjórninni um að hafa sent óveðrið yfir Texas. „Þið sjáið að hann er ekki að bráðna en hann mun brenna. Snjór brennur ekki. Snjór bráðnar. Ekkert vatn sem lekur, ekkert,“ segir hún. „Ef ég set þetta í örbylgjuofninn mun neista því það er búið að blanda málmi í þetta,“ er einnig sagt um snjóinn.
Í öðru myndbandi sést stúlka búa til snjókúlu í garðinum, halda henni yfir sprittkerti og átta sig á að kúlan bráðnar ekki samstundis, sem er að hennar sögn sönnun þess að um samsæri sé að ræða.