Hann hafði verið myrtur af manni sem hann hafði aldrei séð eða hitt. Lögreglan hóf þegar leit að morðingjanum og böndin beindust fljótlega að Steven Carrillo, 32 ára fyrrum liðsmanni úrvalssveita hersins. 8 dögum síðar handtók alríkislögreglan FBI hann vegna málsins. En handtakan gekk ekki áfallalaust fyrir sig.
Carrillo fannst í húsi í bænum Ben Lomond norðan við Santa Cruz í Kaliforniu. Hvíti sendibíllinn var við húsið og var hann fullur af vopnum og sprengiefni. Carrillo hafði ekki í hyggju að gefast upp átakalaust og til skotbardaga kom við lögregluna. Í bardaganum féll 38 ára lögreglumaður úr staðarlögreglunni.
Carrillo var nú grunaður um morð á lögreglumanni og öryggisverði. Hvernig stóð á því að þetta fór svona? Hvað knúði þennan unga mann til slíkra ódæðisverka? Svarið er hugsanlega að finna á Facebook.
Í kjölfar morðanna hefur lögreglan snúið við hverjum steini og skoðað líf Carrillo niður í kjölinn. Í dimmustu skúmaskotum netsins og á Facebook fann lögreglan efni sem vakti miklar áhyggjur. Þetta er efni sem tengist Boogaloo-hreyfingunni sem er hreyfing öfgahægrimanna.
The Guardian segir að Alex Goldenberg, sem hefur rannsakað hreyfinguna og gert ítarlega skýrslu um Boogaloo Bois, hafi varað við framferði liðsmanna hreyfingarinnar á Facebook. Það hafi vakið áhyggjur og ekki hafi verið farið leynt með það, samt sem áður hafi ekkert verið gert í málinu.
„Það var hægt að takmarka þetta. Hefði verið hægt að stöðva þetta alveg? Nei, en það hefði verið erfiðara fyrir þessi samtök að vera til,“ sagði hann í samtali við The Guardian um aðvörunina sem hann setti fram á 400 manna ráðstefnu í febrúar á síðasta ári.
Lögreglan hefur komist að því að Carrillo var mjög virkur á síðum Boogaloo Bois á Facebook. Saksóknarar segja að Ivan Hunter, 26 ára, hafi hvatt hann til að ráðast á lögregluna. Hann lýsti sér sem leiðtoga hreyfingarinnar í suðurhluta Texas. Daginn áður en Carrillo myrti Underwood ók Hunter 2.000 kílómetra frá Texas til Minneapolis þar sem hann skaut inn í brennandi lögreglustöð með sjálfvirkri byssu sinni. Því næst sendi hann skilaboð til Carrillo og hvatti hann til að ráðast á lögregluna. Carrillo svaraði honum og sagði að réttast væri að gera það.