The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn hafi fundið lífverur á steini á sjávarbotni eftir að þeir boruðu tæplega einn kílómetra í gegnum Filchner–Ronne jökulþiljuna sem er í suðausturhluta Weddell Sea. Þeir ætluðu að sækja jarðvegssýni á botninum.
Steinninn kom í veg fyrir að þeir gætu náð jarðvegssýnum en myndir, úr myndavél sem var send niður borholuna, sýna myndir af lífverum á steininum.
„Þetta er svolítið klikkað,“ hefur The Guardian eftir Dr Huw Griffiths, sjávarlíffræðingi hjá the British Antarctic Survey. „Okkur hefði aldrei dottið í hug að leita að lífi sem þessu af því að við töldum að það væri ekki þarna,“ sagði hann.
Ísþiljur myndast þegar frosið vatn frá innri hluta heimsálfunnar flæðir niður að ströndinni og út í sjó. Þegar það flæðir yfir land getur það borið steina með sér sem fara með út í sjó og enda á botninum.
Rannsóknir á Suðurskautinu hafa leitt í ljós að nokkrar litlar lífverur, til dæmis fiskar, ormar, marglyttur og kríli eru stundum undir ísþiljunum en aldrei áður hafa fundist lífverur sem halda sig alltaf á sama stað og lifa á fæðu sem fellur niður til þeirra. Vísindamenn töldu því að umhverfið, undir ísþiljunum, væri þeim of óvinveitt.
Á myndum af steininum sjást að minnsta kosti tvær tegundir svampdýra en einnig sjást aðrar dýrategundir sem virðast búa á steininum.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í Frontiers in Marine Science.