Nýlega sendi Macron staðgengil sinn. Gérald Darmanin, innanríkisráðherra, í kappræður við Le Pen á sjónvarpsstöðinni France 2. Darmanin hefur fengið hlutverk einhverskonar stuðpúða fyrir Macron gegn öfgahægrimönnum. Le Pen er leiðtogi Rassemblement National sem er flokkur öfgahægrimanna. Hún þótti vera gjörbreytt frá því sem áður var og þykir því líkleg til að geta velgt Macron undir uggum í forsetakosningunum og jafnvel sigrað hann.
Í kosningunum 2017 kastaði hún öllum sigurmöguleikum sínum frá sér í sjónvarpskappræðum þar sem hún þótti einna helst minna á óheflaðan götustrák sem skorti alla sjálfsstjórn og vissi lítið sem ekkert um mikilvægustu málefnin sem voru þá efst á baugi.
Nú fengu sjónvarpsáhorfendur hins vegar að sjá yfirvegaða og vel undirbúna Le Pen. Hún var róleg og uppbyggileg í kappræðunum enda veit hún að það er leiðin til að byggja upp trúverðugleika sinn. Aðalumfjöllunarefnið voru ný lög sem beinast gegn öfgasinnuðum múslimum og útbreiðslu skoðana þeirra í frönsku samfélagi. Öfgasinnaðir múslimar ráða meira og minna ríkjum í sumum úthverfum stórborga landsins og margar hryðjuverkaárásir hafa verið gerðar í landinu á síðustu árum.
„Íslamisti er hugmyndafræði sem er hægt að berjast gegn eins og rasisma. Við eigum að nota öll úrræði ríkisins, ekki til að áreita íslamistann, heldur til að útrýma honum,“ sagði Le Pen og kom síðan með fjölda tillagna um hvernig væri hægt að loka moskum, stöðva straum innflytjenda til landsins, vísa öfgasinnuðum múslimum úr landi og svipta íslamista opinberum styrkjum.
Hugmyndir Le Penn ollu Darmanin ákveðnum vandræðum en hann er hægra meginn við miðju í ríkisstjórn Macron og var hann löngum stundum sammála Le Pen enda gat hann varla annað því hann skrifaði bók um hvernig íslamisti laumar sér inn í samfélagið og las Le Pen hvað eftir annað upp úr bókinni. En sem ráðherra veit hann auðvitað að raunveruleikinn er miklu flóknari en stutt og vinsæl slagorð. „Að stöðva straum innflytjenda til landsins leysir ekki vandann með íslamista í Frakklandi“ sagði hann og bætti við að nær öll ríki heims glími við þennan sama vanda. Í Frakklandi séu íslamistar hins vegar dæmdir fyrir það sem þeir gera, ekki fyrir það sem þeir eru. Hann sakaði Le Pen um að slá um sig með ónákvæmum tölum, lygum og falsfréttum. Óvíst er hins vegar hvort það nái eyrum kjósenda sem sáu nýja og yfirvegaða Le Pen þjarma að ráðherranum.