Það var Swati Mohan, leiðangursstjóri, sem staðfesti klukkan 20.55 að Perseverance hefði lent heilu og höldnu. Marsbílinn, sem er í raun blanda af bíl og vélmenni, á að reyna að komast að því hvort líf hafi verið á Mars eða sé jafnvel enn til staðar.
Mikil spenna ríkti fyrir lendinguna enda margt sem gat farið úrskeiðis. Geimfarið, sem flutti Perseveranc til Mars, kom að Mars á miklum hraða eða um 20.000 km/klst. Það varð að hægja á ferðinni og fara nánast niður í gönguhraða manns áður en Perseverance var látinn síga niður á yfirborðið.
Perseverance er fimmti Marsbíllinn sem lendir á Mars. Sá fyrsti lenti þar 1997 og er það NASA sem hefur sent þá alla til Rauðu plánetunnar. Aðeins 40% af þeim geimförum sem hafa verið send til Mars hafa komist heil á húfi á áfangastað sinn og því ljóst að það er allt annað en auðvelt að senda geimför til plánetunnar.
Perseverance mun aðeins aka á daginn því það er of kalt á nóttunni. Að næturlagi mun bíllinn halda sig við steina og kletta til að rannsaka þá, leita að ummerkjum eftir líf en það verður verkefni bílsins næstu árin.
Hann lenti í Jezero-gígnum en þar er talið að stöðuvatn eða haf hafi eitt sinn verið og því um góðan stað að ræða til að leita að ummerkjum um líf.