Flestir tengja eflaust loftslagsbreytingarnar við hækkandi hitastig en ekki kuldakast og mikið vetrarveður eins og hefur herjað á Texas og fleiri ríki í suðurhluta Bandaríkjanna síðustu daga. Vísindamenn segja að gögn sýni að hin mikla hlýnun sem hefur átt sér stað á Norðurheimskautinu geti orðið til þess að ýta köldu lofti frá Norðurpólnum miklu lengra suður, hugsanlega allt að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. The Guardian skýrir frá þessu.
„Núverandi aðstæður í Texas eru sögulegar, að minnsta kosti fyrir þessa kynslóð,“ er haft eftir Judah Cohen, hjá Atmospheric and Environmental Research. Hann sagði að ekki væri hægt að segja að veðrið eigi sér eingöngu náttúrulegar orsakir. Þetta sé ekki afleiðing loftslagsbreytinganna heldur hluti af þeim.
Cohen var meðhöfundur að rannsókn, sem var birt á síðasta ári, þar sem fram kom að á einum áratug, fram til 2018, hafi stormum að vetrarlagi í norðausturhluta Bandaríkjanna fjölgað. Cohen, og fleiri vísindamenn, telja að þetta tengist hlýnun á Norðurheimskautsvæðinu sem hefur hlýnað rúmlega tvisvar sinnum hraðar en að meðalhlýnunin er á heimsvísu. Þetta raskar gömlum og stöðugum veðurkerfum.
Kalt loft er venjulega við Norðurpólinn í kuldahvirflinum þar. Ef þessi kuldahvirfill raskast getur það breytt háloftastraumunum og fært þá úr stað. Þá blása þeir köldu lofti út fyrir venjuleg svæði sitt.