Yonhap skýrir frá þessu. Ekki kemur fram hvenær reynt var að stela gögnunum eða hvort tölvuþrjótunum hafi tekist að stela þeim. Talsmenn Pfizer í Asíu og Suður-Kóreu hafa ekki tjáð sig um málið.
Ha Tae–keung, þingmaður sem á sæti í öryggismálanefnd suður-kóreska þingsins, staðfesti að tilraun hafi verið gerð til að stela þessum gögnum. „Þetta var tilraun til að stela bóluefnatækni og meðferðartækni í tölvuárás og brotist var inn hjá Pfizer,“ sagði hann.
Sérfræðingar telja líklegast að Norður-Kóreumenn hafi reynt að stela þessum gögnum til að selja þau áfram. Ekki sé líklegt að Norður-Kórea hafi ætlað að nota þau til að þróa eigin bóluefni.
Njósnir, sem beinast gegn heilbrigðisyfirvöldum, bóluefnarannsóknum og lyfjaframleiðendum, hafa aukist í heimsfaraldrinum. Á síðasta ári voru norður-kóreskir tölvuþrjótar sakaðir um að hafa brotist inn í tölvur minnst tíu heilbrigðisfyrirtækja og stofnana, þar á meðal Johnson & Johnson og AstraZeneca.