Tölurnar eru byggðar á samanburði á dauðsföllum að meðaltali í sömu mánuðum á árunum 2016 til 2019. Eurostat segir að tölurnar veiti góða mynd af raunverulegum áhrifum og umfangi heimsfaraldursins því þær séu byggðar á öllum dauðsföllum, óháð dánarorsök. Tölur frá Írlandi voru ekki aðgengilegar og eru því ekki með í uppgjörinu.
Eurostat segir að umframdauðsföllin hafi náð hámarki í nóvember en þá hækkaði meðaltal dauðsfalla um 40%. Áður hafði toppnum verið náð í apríl þegar dauðsföllin voru 25% fleiri en vænta mátti.
Frá maí og fram í ágúst dró jafnt og þétt úr umframdauðsföllunum samhliða því að kórónuveirusmitum fækkaði. Þeim fór síðan að fjölga aftur í ágúst.
Í toppnum í nóvember fóru Búlgaría, Pólland og Slóvenía verst út úr umframdauðsföllunum. Í öllum löndunum voru dauðsföllin rúmlega 90% fleiri en að meðaltali árin á undan. Í Belgíu var hlutfallið um 60% og um 50% í Austurríki og á Ítalíu.