Það var 1949 sem Pradyumna Kumar Mahanandia fæddist í bænum Angul á Indlandi. Hann tilheyrði lágstéttinni, það er að segja þeim þjóðfélagshópi sem er neðstur í virðingarstiganum og er álitinn óhreinn á Indlandi. Konan, sem hann varð ástfanginn af, fæddist hins vegar inn í hástéttarfjölskyldu í Svíþjóð. Uppruni þeirra gæti því varla verið ólíkari.
Saga þeirra er ótrúlega falleg og skemmtileg. Þau hafa átt langt og gott líf saman, eiga börn saman og hefur vegnað vel á starfsferlinum. En það er hjólreiðaferð Pradymuna sem gerir sögu þeirra svo sérstaka og fallega.
Pradyumna var svo ákveðinn í að hitta ástina sína aftur að hann ákvað að hjóla rúmlega 9.600 kílómetra frá Indlandi til Svíþjóðar til að hitta Charlotte á nýjan leik.
Þrátt fyrir að hann hafi tilheyrt neðsta þjóðfélagsþrepinu á Indlandi átti hann góða æsku og ástríka foreldra. Hann gekk í skóla og var við nám, til að bæta lífsskilyrði sín en það lá auðvitað ekki í loftinu að hann myndi hitta Charlotte og flytja til Svíþjóðar.
Þegar Charlotte var 19 ára fór hún í ferð til Indlands til að skoða landið aðeins á meðan hún tók sér hlé frá námi. Hún hafði alltaf verið heilluð af Indlandi. Á ferðalagi sínu um landið heyrði hún af ungum og hæfileikaríkum manni sem gæti teiknað portrett á aðeins tíu mínútum. Í von um að fá fallegt portrett af sér fór hún í listaskólann þar sem maðurinn stundaði nám. Þar hitti hún Pradyumna í fyrsta sinn. Þetta var 17. desember 1975 og segja þau að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Þau gengu í hjónaband nokkrum vikum síðar en Charlotte þurfti að snúa aftur heim til Svíþjóðar til að hefja nám.
Í eitt ár sendu þau bréf til hvors annars til að halda sambandinu gangandi og vonuðust eftir að geta hist fljótlega. En Pradyumna saknaði hennar svo mikið og var staðráðinn í að heimsækja eiginkonu sína í Svíþjóð. En hann átti ekki fyrir flugmiða en sá það ekki sem neina stóra hindrun og ákvað þess í stað að hjóla frá Indlandi til Svíþjóðar. Þann 22. janúar 1977 lagði hann af stað með nokkrar krónur í vasanum. Hann hjólaði um 70 kílómetra á dag, á gömlum hjólgarmi, og þann 28. maí kom til Borås. Hann hafði þá meðal annars hjólað í gegnum Afganistan, Íran, Júgóslavíu og Þýskaland.
Gleði ungu hjónanna var að vonum mikil þegar þau hittust á nýjan leik og þau hafa verið óaðskiljanlega allar götur síðan. Þau gengu aftur í hjónaband í Svíþjóð og eignuðust börn. Pradyumna er listamaður en Charlotte er tónlistarkennari. Þau eru miklir náttúruunnendur og vinna að því að gera heiminn betri en hann er í dag. Þess utan segjast þau vera enn ástfangnari en þau voru fyrir 44 árum.