Þann 21. mars klukkan 16.03 að íslenskum tíma mun risastór loftsteinn þjóta fram hjá jörðinni. Hann er svo stór og fer svo nærri jörðinni að bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur sett hann í flokk loftsteina sem hugsanleg hætta getur stafað frá. Enginn annar loftsteinn, sem er álíka að stærð eða fer jafn hratt, mun koma nærri jörðinni á þessu ári. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af árekstri að þessu sinni segja stjörnufræðingar.
LiveScience skýrir frá þessu. Fram kemur að loftsteinninn, sem nefnist 231937 (2001 FO32) sé 0,8 til 1,7 km í þvermál og verði í um tveggja milljóna kílómetra fjarlægð þegar hann verður næst jörðinni. Hraði hans verður þá um 124.000 km/klst.
NASA flokkar alla loftsteina og annað sem kemur nær jörðinni en 7,5 milljónir kílómetra sem hugsanlega hættulega hluti.