Á mánudaginn sáu flugmenn strandgæslunnar, sem voru í eftirlitsflugi, fólkið þar sem það stóð og veifaði heimagerðum fána á eyjunni Anguilla Cay en hún er á milli Flordia Keys og Kúbu. CNN skýrir frá þessu.
„Þetta er ótrúlegt. Ég veit ekki hvernig þau fóru að þessu. Ég er mjög hissa á hversu góðu ástandi þau voru í,“ sagði Justin Dougherty, lautinant, í samtali við CNN.
Fólkinu hafði hlekkst á í bát sínum en náðu að synda í land á eyjunni þar sem þau biðu björgunar og lifðu á kókoshnetum og rottum.
Strandgæslan kastaði talstöð, mat og vatni niður til þeirra á mánudaginn og á þriðjudaginn var þeim síðan bjargað af eyjunni. Þau voru flutt flugleiðis til Lower Keys Medical Center í Key West á Flórída til læknisrannsókna.