Sky News birti um helgina hlaðvarp þar sem Patrick Sanders, hershöfðingi og Jeremy Fleming, yfirmaður GCHQ, sem er stærsta breska leyniþjónustan, afhjúpuðu hvað gekk á bak við tjöldin og hvernig tókst að blekkja og rugla liðsmenn hryðjuverkasamtakanna.
Samtökin voru leiðandi í notkun lítilla dróna sem voru búnir sprengjum. Í hlaðvarpinu sagði Fleming hvernig tölvusérfræðingum tókst með aðstoð sérsveitarmanna í Sýrlandi að trufla tilraunir samtakanna til að nota drónana. Þeim tókst að stýra hvert þeim var flogið eða sjá til þess að þeir kæmust ekki á loft.
Bretar hökkuðu sig einnig inn í farsíma yfirmanna samtakanna og tölvur þeirra en þennan búnað notuðu þeir til að samhæfa aðgerðir sínar gegn herafla Bandamanna. Með þessu tókst Bretum að koma í veg fyrir að yfirmennirnir gætu sent fyrirmæli til hermanna sinna eða sáu til þess að þeir fengu röng skilaboð og fyrirmæli. Þeir fengu til dæmis fjölda hermanna til að fara í ranga átt og sendu þá beint í flasið á hermönnum Bandamanna eða beint í dauðann.
Í öðrum tilfellum tókst að loka algjörlega á samskipti yfirmanna við hermenn og varð það stundum til þess að þeim fannst þeir vera yfirgefnir og einangraðir og gáfust því upp, lögðu niður vopn og yfirgáfu vígvöllinn.
Stórum hluta af þessum nethernaði var stýrt frá höfuðstöðvum GCHQ í Cheltenham í Englandi. Að auki var unnið við að eyða áróðri frá samtökunum af samfélagsmiðlum og öðrum stöðum á netinu.
Í samstarfi við bandarískar leyniþjónustustofnanir hökkuðu Bretar sig inn á netþjóna víða um heim og komu spilliforritum fyrir í þeim til að fylgjast með því sem fór um þá eða jafnvel til að eyðileggja þá.