Þetta kemur fram í tölum frá dönsku hagstofunni. Á síðasta ári voru gistinæturnar 19,9 milljónir, þar af voru Danir á bak við tæplega 9 milljónir þeirra. Það eru 3,6 milljónum fleiri gistinætur Dana en árið á undan, eða 68% aukning.
Metárið í gistinóttum var 2019 en þá voru þær 20,7 milljónir. Nú er spurningin hvort það met falli á þessu ári, að minnsta kosti lofar bókunarstaðan góðu. BT hefur eftir Louise Aggerstrøm Hansen, hagfræðingi hjá Danske Bank, að í desember hafi Danir bókað 15.022 gistinætur í dönskum sumarhúsum í júlí. Frá október til desember bókuðu Danir 117% fleiri vikur í sumarhúsum í júlí en á sama tíma á síðasta ári. „Það bendir til að við væntum þess í stórum stíl að vera í sumarfríi í Danmörku á næsta ári,“ er haft eftir henni.
Á sama tíma og sumarhúsin voru vel nýtt á síðasta ári voru hótel og gistiheimili hálf tóm. Gistinætur á hótelum hafa ekki verið færri í 23 ár.