Dagens Nyheter skýrir frá þessu. Þegar Margareta Thorgren, upplýsingafulltrúi hirðarinnar, var spurð hvort þáttaröð sem þessi valdi áhyggjum var svarið: „Ég get svarað þessu almennt. Ég held að það sé alltaf ákveðinn órói hjá þeim sem á að fjalla um.“
Hún hefur rætt við handritshöfundinn, Åsa Lantz, um þáttaröðina en hún á að vera einhverskonar dramaheimildamyndaröð. Thorgren sagðist því vonast til að þeir hlutar hennar, sem verða sögulegir, verði nærri staðreyndum og sannleika en að það verði að virða að hvað við kemur dramanu þá megi fara frjálslega með hlutina.
Þegar hún var spurð hvort konungsfjölskyldan fagni þáttaröðinni var svarið: „Það fáum við að vita þegar þetta verður sýnt.“
Karl Gústav, konungur, verður aðalumfjöllunarefni þáttaraðarinnar en hann hefur komið við sögu í mörgum málum sem verða að teljast vera hneykslismál. Hann er meðal annars sagður hafa átt í ástarsambandi við þekkta söngkonu en hún hefur sjálf skýrt frá sambandi þeirra. Þá er hann margoft sagður hafa farið á nektardansstaði.
Það er sænska sjónvarpsstöðin TV4 sem framleiðir þættina í samvinnu við streymisveituna Cmore.