fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Pressan

Þrjú geimför eru á lokametrunum til Mars – Vaxandi spenna

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 8. febrúar 2021 22:30

Mars. Mynd: Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næstu daga verður óvenjulega líflegt í himinhvolfinu yfir Mars. Þrjú geimför eru á lokasprettinum til plánetunnar og spennan fer vaxandi hjá geimferðastofnununum, sem standa á bak við ferðir þeirra, eftir því sem geimförin nálgast áfangastaðinn.

Ef allt fer eftir áætlun kemur Hope geimfar Sameinuðu arabísku furstadæmanna til Mars á morgun. Á miðvikudaginn er það Tianwen-1 geimfar Kínverja og þann 18. febrúar mun bandaríski Marsbílinn Perseverance hefja aðflug að Mars. The Guardian skýrir frá þessu.

Það að þrjú geimför koma til Mars á nánast sama tíma er til marks um aukinn áhuga margra þjóða á að hasla sér völl í geimnum og rannsóknum á sólkerfinu okkar. En hvort þessi verkefni gangi öll upp að þessu sinni er annað mál og skýrist á næstu dögum. Það er ekki einfalt að senda geimför til Mars og hvað þá að lenda þeim á plánetunni. Frá því að byrjað var að senda geimför til Mars í byrjun sjöunda áratugarins er árangurinn aðeins um 50%. Um helmingur geimfaranna hefur brotlent eða einfaldlega farið fram hjá Mars.  Ástæðurnar eru mistök við hönnun geimfaranna, mistök við hönnun eldflauganna eða hugbúnaðarvillur. „Þetta getur verið átakanlegt,“ sagði Colin Wilson, eðlisfræðingur við Oxford háskóla, í samtali við The Guardian. „Það var búnaður frá mér í tveimur Marsferðum. Bresku Beagle ferðinni og evrópsku Schiaparelli ferðinni – í bæði skiptin var ég í stjórnrýminu og ríghélt í sætið mitt á meðan þau lækkuðu flugið. Í bæði skiptin brotlentu geimförin.“

Marsbíllinn Perseverance. Mynd: NASA

Aðstæður á Mars eru erfiðar af ýmsum ástæðum. Má þar nefna að plánetan er í margra milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðinni og því er samskiptatíminn við geimförin langur og ekki hægt að bregðast samstundis við ef vandamál koma upp, treysta verður algjörlega á fyrirfram ákveðna ferla. Gufuhvolfið á Mars er þunnt. Þar geta sand- og rykstormar geisað og vindur getur haft áhrif á flug geimfaranna og ýtt þeim af braut þegar þau eru að koma til lendingar. Gufuhvolfið er hins vegar ekki nægilega þykkt til að hægt sé að nota fallhlífar í öllu aðfluginu. Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur meðal annars brugðist við þessu með því að setja loftpúða utan um geimförin þannig að þau hafa skoppað í honum á yfirborðinu eftir að þeim var sleppt úr fallhlíf. En ný kynslóð Marsbíla NASA er of þung og flókin til að hægt sé að nota þessa aðferð og því mun Perseverance lenda með svokallaðri „kranaaðferð“.

Þessi aðferð hefur einu sinni áður verið notuð en það var 2012 þegar Marsbílinn Curiosity lenti á Mars. Perseverance er mun þyngri og verkefnið enn flóknara. Hjá NASA er talað um að fram undan séu „sjö hryllingsmínútur“. Það er sá tími sem það mun taka Perseverance, sem er rúmlega eitt tonn, að lenda á yfirborði Mars eftir að hafa komið inn í gufuhvolfið á um 21.000 km/klst. Gufuhvolfið mun hægja aðeins á hraðanum, því næst opnast risastór fallhlíf sem mun draga mjög úr hraðanum og verður hann aðeins nokkur hundruð km/klst. Því næst kviknar á eldflaugum geimfarsins sem munu hægja enn frekar á því og síðan halda því í um 20 metra hæð yfir yfirborðinu. Því næst mun krani slaka bílnum niður á yfirborðið. Síðan verður skorið á kaplana og geimfarið sjálft, með kranann, mun fljúga í burtu og brotlenda í öruggri fjarlægð frá Perseverance. Það verður ekki fyrr að þessu loknu sem skilaboð verða send til jarðarinnar um hvort allt hafi gengið upp.

Hope, geimfar Sameinuðu arabísku furstadæmanna, fer ekki í svona flókið ferli því það fer bara á braut um jörðina en það á að komast á hana með því að nota aðalvél sína í 30 mínútur til að hægja ferðina og komast á rétta braut. Hope mun svo rannsaka gufuhvolf Mars næstu tvö árin til að öðlast skilning á af hverju það þynntist svona á milljörðum ára en það var áður það þykkt að vatn var á Mars.

Kínverska Tianwen-1 fer einnig á braut um Mars. Það mun rannsaka plánetuna í nokkra mánuði áður en það sendir 250 kg vélmenni niður á yfirborðið. Ef það tekst verður Kína annað landið, á eftir Bandaríkjunum, til að koma vélmenni á yfirborð Mars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Skógarbjörn varð 58 ára föður og afa að bana í furðulegu slysi

Skógarbjörn varð 58 ára föður og afa að bana í furðulegu slysi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Skrímslið frá Avignon“ fékk 20 ára fangelsisdóm

„Skrímslið frá Avignon“ fékk 20 ára fangelsisdóm