Þetta kemur fram í greiningu á fjölda rannsókna en greiningin var birt á þriðjudaginn. Fram kemur að seinnipart mars á síðasta ári hafi um 60% COVID-19-sjúklinga á gjörgæsludeildum látist. Í lok maí var hlutfallið komið í 42% og í lok október var það komið í 36%. Það virðist því sem að þessi lækkandi dánartíðni sé nú að „fletjast út“ og staðna að mati vísindamannanna sem fóru í gegnum 52 rannsóknir þar sem 43.128 sjúklingar komu við sögu. Rannsóknirnar voru gerðar í Evrópu, Norður-Ameríku, Kína, Miðausturlöndum, Suður-Asíu og Ástralíu.
Nú veit heilbrigðisstarfsfólk betur hvað virkar og hvað virkar ekki í meðferð þeirra sem veikastir eru af sjúkdómnum. Fram kemur að sterar eins og dexamethason auki líkurnar töluvert á að sjúklingar, sem þurfa að vera í öndunarvél, lifi af. Einnig hefur meðhöndlun með súrefni og fleiri aðferðum þróast síðan í upphafi faraldursins. Áskoranir framtíðarinnar eru að álag á sjúkrahús getur aukist vegna nýrra afbrigða veirunnar og þau geta einnig stökkbreyst þannig að þau verði banvænni.