Félagið segir að það hafi aldrei glímt við eins erfitt rekstrarumhverfi og nú síðan það var stofnað fyrir 35 árum.
Tap þess nam 306 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi 2020 og má rekja það til ferðatakmarkana og annarra sóttvarnaaðgerða í Evrópu. Flugfélagið var síðast rekið með tapi 2009.
Í tilkynningu frá félaginu segir að ESB verði að setja aukinn kraft í bólusetningaáætlun sína til að halda í við Breta, núverandi hægagangur ógni bókunum hjá félaginu.
Michael O’Leary, forstjóri félagsins, segist treysta á að fólk muni ferðast næsta sumar og segist reikna með að Bretar muni fara til sólarstranda. Í viðtali við BBC Radio 4 sagði hann að þar sem 93% af öllum dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar eigi sér stað hjá fólki eldra en 65 ára verði engin þörf á ferðatakmörkunum þegar búið verður að bólusetja fólk í þessum aldurshópi í Bretlandi og á meginlandinu.