Mörg hundruð manns fréttu af þessu og mættu á staðinn í þeirri von að fá bólusetningu. Bóluefni frá Moderna var geymt í frystinum. Um leið og kom í ljós að hann var bilaður var kallað á heilbrigðisstarfsfólk, slökkviliðsmenn og fleiri til að fá bólusetningu svo bóluefnið færi ekki til spillis en það verður ónýtt ef það er ekki geymt við nægilega mikið frost.
„Ég fékk að vita að frystirinn væri bilaður klukkan níu á fimmtudagskvöldið og var spurð hvort ég gæti hjálpað til við að bólusetja fólk áður en skammtarnir eyðilegðust,“ sagði Jenny Bracket í samtali við Seattle Times. Hún starfar á sjúkrahúsinu og var meðal þeirra sem unnu alla nóttina við að bólusetja fólk. Verkefni hennar fólst í að finna fólk í röðinni, fyrir utan sjúkrahúsið, sem átti að fá sprautu. Þar var fólk, 65 ára og eldra, valið úr til að fá sprautu en margir yngri urðu að snúa vonsviknir frá.
Cassie Sauer, framkvæmdastjóri opinberra sjúkrahúsa í Seattle, sagði að frystirinn hafi bilað á versta tíma en strax hafi verið ákveðið að koma öllu bóluefninu strax í notkun. Hún sagði jafnframt að tryggt verði að þeir sem fengu sprautu þessa nótt fái skammt númer tvö á tilsettum tíma.