Ekki er langt síðan að háttsettir ísraelskir embættismenn og Benjamin Netanyhu, forsætisráðherra, fóru í stutta og leynilega ferð til Sádi-Arabíu þar sem Netanyhu ræddi við Mohammed bin Salman, krónprins, sem fer með nær öll völd í landinu. Ferðin þykir til marks um bætt samskipti ríkjanna en þau eiga sér sameiginlegan óvin sem er Íran.
Í tilkynningu frá ísraelska utanríkisráðuneytinu segir að sendiráði í Abu Dhabi hafi formlega verið opnað á sunnudaginn þegar Eitan Naeh, sendiherra, kom þangað.
Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa ákveðið að opna sendiráð í Tel Aviv. „Þetta er mikilvæg ákvörðun sem mun styrkja böndin á milli ríkjanna og íbúanna,“ er haft eftir Gabi Ashkenazi, utanríkisráðherra Ísraels, í tilkynningu frá ísraelska utanríkisráðuneytinu.
Auk Sameinuðu arabísku furstadæmanna hafa Bahrain, Marokkó og Súdan samið við Ísrael um bætt samskipti. Áður voru það aðeins Egyptaland og Jórdanía sem áttu í diplómatískum samskiptum við Ísrael.
Reiknað er með að sendifulltrúar Ísraels í Marokkó og Dubai taki til starfa á allra næstu dögum.
Önnur Arabaríki hafa sagt að þau muni ekki viðurkenna tilvist Ísraels fyrr en friðarsamningur verður gerður við Palestínumenn.