Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu General Psychiatry. Í henni var svefnmynstur 2.214 heilbrigðra einstaklinga, 60 ára og eldri, í nokkrum kínverskum stórborgum rannsakað. 1.534 þeirra fengu sér reglulega síðdegisblund sem varði allt frá fimm mínútum upp í tvær klukkustundir. 680 fengu sér ekki síðdegisblund. Sky News skýrir frá þessu.
Próf var lagt fyrir þátttakendurna og var niðurstaða þess að þeir sem fengu sér síðdegisblund voru betur áttaðir, áttu auðveldar með að tjá sig og minni þeirra var betra.
Í niðurstöðu rannsóknarinnar segja vísindamennirnir að ekki sé hægt að draga þá ályktun að síðdegisblundur komi í veg fyrir að fólk þjáist af elliglöpum og hrörnandi vitsmunum eða hvort blundurinn sé einkenni elliglapa.