Sky News segir að á fundinum í gær hafi fulltrúar ESB krafist áætlunar frá fyrirtækinu um hvernig það ætli að standa við afhendingu á umsömdu magni bóluefnis. Stella Kyriakides, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB, sagði að fundi loknum að sambandið „harmi að enn vanti skýringar á afhendingaráætluninni“ og „vilji fá skýra afhendingaráætlun frá AstraZeneca um skjóta afhendingu þess magns sem við pöntuðum fyrir fyrsta ársfjórðung“.
Talsmaður AstraZeneca sagði að á fundinum hefði verið rætt um hversu flókið það er að auka framleiðslugetuna og að fyrirtækið „muni halda áfram viðleitni sinni til að koma bóluefninu til milljóna Evrópubúa án þess að hagnast á því á meðan heimsfaraldurinn geisar“.
Spennan á milli ESB og AstraZeneca hefur farið vaxandi síðustu daga eftir að fyrirtækið tilkynnti að það gæti ekki staðið við afhendingu þess magns af bóluefninu, sem áður hafði verið tilkynnt um, í Evrópu. Segir fyrirtækið að þetta sé vegna framleiðsluvandamála í verksmiðjum þess á meginlandi Evrópu.
ESB segir að þetta sé brot á samningi fyrirtækisins við sambandið og að það verði að senda bóluefni frá öðrum verksmiðjum sínum, einnig þeim í Bretlandi, til að uppfylla samninginn.
Þegar skrifað var undir samning á milli ESB og AstraZeneca kom fram að fyrirtækið myndi afhenda 80 milljónir skammta fyrir lok mars á þessu ári en fyrirtækið tilkynnti nýlega að það myndi aðeins afhenda 31 milljón skammta.