Ákvörðunin um rannsóknina var tekin eftir að New York Times skýrði frá því að Donald Trump, fyrrum forseti, hafi á síðustu vikum valdatíðar sinnar reynt að fá Jeffrey Rosen, starfandi dómsmálaráðherra, til að taka undir fullyrðingar sínar og staðlausar samsæriskenningar um að víðtækt kosningasvindl hefði átt sér stað.
Rosen er sagður hafa hafnað þessu og þá hafi Trump haft samband við Jeffrey Clark, lögmann hjá ráðuneytinu. Clark tók undir fullyrðingar Trump um kosningasvindl og ræddu hann og Trump að sögn um að Trump myndi víkja Rosen úr embætti og Clark tæki við. Hann myndi síðan nota völd sín til að breyta niðurstöðum kosninganna. Hópur háttsettra embættismanna í ráðuneytinu fékk síðan veður af þessum fyrirætlunum og hótuðu þeir að hætta samstundis ef Trump losaði sig við Rosen. Þetta fékk að sögn New York Times Trump til að hætta við þessa áætlun sína.