„Niðurstöðurnar eru skýrar með að áfengi veikir ónæmiskerfið og að hættan á sýkingu eykst,“ hefur Svenska Dagbladet eftir Sven Andreasson, prófessor við Karólínskustofnunina. Í samstarfi við vísindamenn frá Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu fór hann yfir niðurstöður 215 rannsókna, sem hafa verið birtar í vísindaritum, um áhrif áfengisneyslu á útbreiðslu kórónuveirunnar. Niðurstaðan er skýr: Áfengi og kórónuveiran eru mjög slæm blanda.
Ónæmiskerfið veikist þegar fólk drekkur áfengi og því aukast líkurnar á að smitast af kórónuveirunni en einnig aukast líkurnar á að veikjast alvarlega af sýkingu. Að auki eykur áfengi líkurnar á fjölda lífstílssjúkdóma á borð við sykursýki, ofþyngd og hjarta- og æðasjúkdómum sem geta gert áhrif COVID-19 verri.
Það má síðan ekki gleyma áhrifum áfengis á mannlega hegðun. Ölvað fólk hefur tilhneigingu til að fara síður eftir sóttvarnareglum (virða fjarlægðarmörk, nota andlitsgrímur og þvo hendur) og dómgreind þess skerðist.
Áfengi hefur ekki bara neikvæð áhrif á þróun kórónuveirusmita og alvarleika COVID-19 því það hefur einnig slæm áhrif á andlegu hliðina. Meðal fylgifiska heimsfaraldursins eru einangrun, leiði, stress og þunglyndi. Áfengisneysla gerir þessa þætti enn verri. Að auki veldur andlegt álag því að fólk leitar enn frekar í áfengi. Þar er því kominn vond hringrás sem hefur ýmsar afleiðingar. Í Svíþjóð, og víðar, hefur heimilisofbeldi til dæmis færst í vöxt.