Þegar hún var 15 ára nauðgaði kennari í stúlknaskóla í Hobart, sem hún gekk í, henni. ABC News skýrir frá þessu. „Ég missti meydóminn með barnaníðingi. Ég var 15 ára. Þjáðist af lystarstoli. Hann var 58 ára. Hann var kennarinn minn,“ sagði Grace þegar hún tók við verðlaununum og mátti vel heyra að hún var mjög snortin.
„Hann áreitti mig mánuðum saman. Hann misnotaði mig næstum daglega. Fyrir skóla . . . Eftir skóla . . . Í skólabúningnum mínum . . . Á gólfinu . . .“
Ofbeldismaðurinn var dæmdur í fangelsi en Grace mátti ekki skýra opinberlega frá því sem hún lenti í vegna þess að lög í Tasmaníu bönnuðu það. Hins vegar máttu ofbeldismaðurinn og fjölmiðlar segja og skrifa það sem þeir vildu um málið.
Saga hennar var upphafið að baráttu undir myllumerkinu #letherspeak (leyfið henni að tala) þar sem hún var, að vísu ósýnilegt, andlit fórnarlambs sem ekki mátti koma fram undir nafni eða láta andlit sitt sjást. Herferð og barátta Grace endaði með að hæstiréttur tók málið fyrir og heimilaði henni og öðrum fórnarlömbum kynferðisofbeldis að koma fram undir nafni og segja sögu sína.
Hún er þó ekki hætt baráttu sinni fyrir betri heimi og þegar hún tók við verðlaununum á mánudaginn sagði hún að árangur hafi náðst en enn sé langt í mark. „Kynferðisofbeldi gagnvart börnum á sér enn stað og samfélög sem hunsa það eru enn til,“ sagði hún og bætti við: „Gerendurnir ráðskast með okkur öll. Fjölskyldur, vini, samstarfsfólk, ókunnuga. Í öllum lögum samfélagsins, öllum menningarheimum og samfélögum. Þeir dafna þegar við berjumst gegn okkur sjálfum. Þeir gera veikleika okkar að sínu vopni.“
Sjálf skammaðist hún sín þegar hún kom fyrst fram í fjölmiðlum. „En nú hef ég séð hvernig sannleikurinn minn þjappar okkur saman. Ég veit hver ég er, ég komst í gegnum þetta,“ sagði hún.
Hún er þeirrar skoðunar að það að geta rætt um kynferðislegt ofbeldi geti bundið endi á það, jafnvel þótt það sé óþægilegt að ræða það. „Já, umræður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum eru óþægilegar en ekkert er óþægilegra en ofbeldið sjálft. Þess vegna skuldum við senda þessi óþægindi þangað sem þau eiga heima, við fætur ofbeldismannanna,“ sagði hún.
Til þeirra sem telja að það beri engan árangur að berjast hafði hún skýr skilaboð: „Fyrir 11 árum síðan lá ég á sjúkrahúsi og glímdi við lystarstol og gat næstum ekki gengið. Á síðasta ári sigraði ég í maraþonhlaupi. Já, við getum breytt okkur sjálfum. Við getum breytt samfélaginu okkar.“