Það fór að bera á viðskiptum með bóluefni gegn kórónuveirunni í desember en að sögn tölvufyrirtækisins Check Point hefur ekki dregið úr þeim á síðustu vikum, þvert á móti. Í nýrri skýrslu frá fyrirtækinu kemur fram að ýmislegt bendi til að eftirspurnin hafi aukist mikið. Auglýsingum, þar sem bóluefni eru auglýst til sölu, hefur fjölgað um 400% og um leið hefur verðið hækkað mikið eða úr 250 dollurum á skammt í 500.
Niels Zimmer Poulsen, hjá Check Point, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að þrátt fyrir að varað hafi verið við kaupum á bóluefni á djúpnetinu virðist sem áhuginn á slíkum viðskiptum fari vaxandi, margir virðist reiðubúnir til viðskipta við glæpamenn.
Í tengslum við rannsóknina reyndi fyrirtækið að eiga viðskipti út frá auglýsingum á djúpnetinu en eins og vænst var bar það ekki árangur því meirihlutinn af auglýsingunum er falskur. Bendir fyrirtækið á að líklega sé meirihluti þeirra bóluefna, sem boðin eru til sölu, ekki til. Ef fólk fái aftur á móti sendingu með einhverju sem líkist bóluefni gegn veirunni séu miklar líkur á að um falskt efni sé að ræða sem geti í versta falli verið stórhættulegt fyrir fólk.