Sky News skýrir frá þessu og segir að í nýrri yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins sé kínverski kommúnistaflokkurinn sakaður um „banvæna þráhyggju varðandi leynd og stjórn“ og að í rannsóknarstofunni hafi verið gerðar tilraunir með veiru sem líkist kórónuveirunni mjög.
Fyrstu staðfestu tilfelli faraldursins voru í Wuhan og hefur verið talið að rekja megi uppruna þeirra til matvælamarkaðar í borginni þar sem villt dýr eru seld.
Flestir vísindamenn telja að veiran hafi borist í fólk frá dýrum en sumir hafa viðrað þann möguleika að hún gæti óvart hafa sloppið út úr rannsóknarstofunni í Wuhan.
Ríkisstjórn Trump hefur verið sérstaklega gagnrýnin í garð Kínverja eftir að heimsfaraldurinn braust út.
Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins segir að vísindamenn hafi verið að gera tilraunir í rannsóknarstofunni með RaTG13-leðurblökuveiruna sem er sú veira sem er skyldust SARS-CoV-2. Veiran hafi óvart sloppið út og nokkrir vísindamenn veikst og hafi sjúkdómseinkennin verið lík einkennum COVID-19 veikinda.
Bandarískir embættismenn játa að þeir viti ekki með vissu hvenær eða hvernig veiran hafi borist í fólk.
Talsmenn rannsóknarstofunnar hafa alla tíð vísað ásökunum á borð við þessa á bug og það hafa kínversk stjórnvöld einnig gert. Þau hafa raunar gengið enn lengra og sagt að faraldurinn gæti hafa átt upptök sín í öðru landi en kínversk yfirvöld hafa verið sökuð um að reyna að breiða yfir staðreyndir málsins og fegra söguna, sér í vil.