fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Pressan

Hún hvarf sporlaust í skemmtisiglingunni – Síðan kom tölvupósturinn sem fékk mjög á foreldrana

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 19. janúar 2021 05:34

Amy og Brad Bradley um borð í skemmtiferðaskipinu. Mynd:FBI

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Amy Bradley, vinsamlegast gefðu þig fram við upplýsingaborðið,“ hljómaði í hátalarakerfi norska skemmtiferðaskipsins Rhapsody of the Seas þann 24. mars 1998. Skipið var þá rétt lagst að bryggju í Curacao í Karabískahafinu. Sólbrúnir farþegar streymdu frá borði til að fara að snorkla, kafa og upplifa eyjuna. En fjölskylda Amy, sem var 23 ára, hljóp um skipið í leit að Amy.

Með Amy í för á skipinu voru faðir hennar, Rob 51 árs, móðir hennar, Iva 49 ára, og bróðir hennar, Brad 21 árs. Rob hafði unnið siglinguna í sölukeppni í vinnunni. Amy var horfin og þau höfðu ekki hugmynd um hvar hún gæti verið. Það liðu sjö ár þar til þau fengu fréttir af Amy á nýjan leik. Þá fengu þau tölvupóst sem fékk kalt vatn til að renna á milli skins og hörunds. „Enginn á að þurfa að upplifa það sem við upplifðum,“ sagði Ron þá í samtali við ABC News.

Hvarfið

En víkjum nú aftur til aðfaranætur 24. mars 1998. Eftir að hafa verið að skemmta sér með skipshljómsveitinni, Blue Orchid, læddust Amy og Brad inn í káetu fjölskyldunnar þar sem foreldrar þeirra sváfu vært. Klukkan 04.30 settust systkinin út á svalir káetunnar til að spjalla saman á meðan skipið nálgaðist Curacao. Eftir góða stund fór Brad inn til að leggja sig en Amy varð eftir í sólstólnum.

Á milli klukkan 05.15 og 05.30, þegar skipið er í aðsiglingu að eyjunni, sá Ron að Amy svaf í sólstólnum. Þegar hann fór á fætur hálfri klukkustund síðar voru dyrnar út á svalir opnar og Amy var horfin. Taskan hennar á borðinu en í henni voru öll skilríkin hennar og peningar. Skórnir hennar voru á svölunum. Það vantaði bara sígaretturnar hennar og kveikjarann.

Rob fór út úr káetunni og upp á önnur dekk skipsins til að leita að Amy. Hún hafði gaman af að taka ljósmyndir svo honum datt í hug að hún væri kannski að taka myndir af litskrúðugum húsunum við innsiglinguna til Willemstad, höfuðborgar eyjunnar. En hann fann hana ekki. Það var ólíkt Amy að hverfa svona og því flýtti Ron sér í káetuna og vakti Iva. Næstu klukkustundina leituðu þau að henni en án árangurs. Þá létu þau öryggisverði vita. „Ég fór að leita að henni. Þegar ég fann hana ekki vissi ég ekki hvað ég átti að halda. Það var svo ólíkt Amy að stinga af og segja okkur ekki hvert hún ætlaði, „ skrifaði Iva á vefsíðuna International Cruise Victims. Síðan er helguð ferðamönnum sem hafa horfið sporlaust af skemmtiferðaskipum.

Bradley-fjölskyldan á góðri stundu í siglingunni. Mynd:FBI

Rob  og Iva reyndu allt sem þau gátu til að fá skipstjóra skipsins til að fresta því að leggjast að bryggju því þau óttuðust að Amy hefði verið numin á brott og að henni yrði smyglað frá borði þegar skipið legðist að bryggju. Norskur skipstjóri skipsins var ekki til viðræðu um þetta og sagði að halda yrði áætlun að sögn The New York Times. Hann óttaðist að sögn að skelfing myndi grípa um sig meðal farþeganna ef þeir fengu að vita að Amy væri horfin.

Áhöfnin hóf síðan leit í skipinu og í sjónum. Á sama tíma læddust hugsanir að Rob og Iva um undarlega hluti sem höfðu átt sér stað dagana á undan. Þau rifjuðu upp að þrír þjónar, sem sáu um borðið þeirra í matsalnum, hefðu sýnt Amy mikla athygli. Þeir voru mjög nærgöngulir og vildu fá Amy með sér á veitingastað í Curaco. Því boði hafnaði hún kurteislega. Síðar sagði hún foreldrum sínum að þjónarnir hefðu hrætt hana. „They give me the creeps,“ sagði hún við þau.

Það rifjaðist einnig upp fyrir Iva skömmu áður en þau fóru í mat einn daginn höfðu þau látið taka myndir af sér hjá skipsljósmyndaranum. Þegar hún fór að sækja myndirnar eftir matinn voru allar myndirnar af Amy horfnar. Ljósmyndarinn sagðist hafa hengt þær upp en hefði ekki hugmynd um hver gæti hafa stolið þeim.

Símtalið

Fjölskyldan yfirgaf skipið á Curacao og fékk sér hótelherbergi enda fullviss um að Amy hlyti að vera í grenndinni. Þau höfðu samband við bandaríska sendiráðið og alríkislögregluna FBI. „Við vitum að hún er á lífi. Þið verðið að hjálpa okkur,“ grátbað Iva. Hjá FBI áttuðu menn sig á alvörunni og sögðu að lögreglumenn yrðu komnir innan 24 klukkustunda.

Þegar þau horfa á eftir Rhapsody of the Seas sigla frá eyjunni áleiðis til St. Thomas var hringt frá FBI. Lögreglumenn höfðu rætt við útgerð skipsins og fengið að vita að aðeins hefði verið leitað að Amy í sameiginlegum rýmum í skipinu og að miklar líkur væru á að Amy væri haldið fanginni í einhverri af 336 káetum skipsins.

FBI lýsti eftir Amy. Mynd:FBI

Fjölskyldan flaug strax til St. Thomas og hitti útsendara FBI sem voru þangað komnir. Um leið og skipið lagðist að bryggju fóru fjölskyldan og lögreglumennirnir um borð. Þeir leituðu í öllum káetum, geymslum og öðrum rýmum og dreifðu myndum af Amy til farþeganna. Engin ummerki fundust í káetu fjölskyldunnar sem bentu til að Amy hefði fallið út af svölunum eða stokkið út frá þeim.

Tvær stúlkur gáfu sig á tal við Rob og Iva og sögðust vissar um að þær hefðu sé Amy klukkan 05.45 morguninn sem hún hvarf. Þær sögðu að hún hefði verið með Alister „Yellow“ Douglas sem var bassaleikari í Blue Orchid, á sóldekkinu og að hann hefði gefið henni það sem þær kölluðu „dökkan drykk“.

Tekinn til yfirheyrslu

FBI yfirheyrði Douglas sem staðfesti að hann hefði verið með Amy á þessum tíma en fullyrti að hann hefði ekkert með hvarf hennar að gera. „Ég fór bara að sofa,“ sagði hann. FBI fékk upptöku úr eftirlitsmyndavélum diskóteks skipsins þar sem Douglas og Amy sáust dansa saman um klukkan 3.  Á upptökunni sést Douglas standa fyrir aftan hana og halda um mitti hennar á meðan þau dansa. Douglast gekkst undir lygamælispróf og stóðst það. Bradley-fjölskyldunni til mikillar undrunar var hann þá látinn laus. Á leiðinni út brosti hann til Rob og beindi þumlinum upp í loft.

Alister „Yellow“ Douglas að dansa við Amy. Mynd:FBI

Eftir fjóra daga gafst fjölskyldan upp og taldi útséð um að svarið væri að finna um borð í skipinu. Það sama gerði FBI sem játaði að ekkert hefði miðað við rannsókn málsins. fjölskyldan fór heim til Petersburg í Virginíu þar sem þau settu eigin vefsíðu og símalínu á laggirnar til að taka við ábendingum um hvar Amy væri að finna og hét háum verðlaunum fyrir upplýsingar sem gætu leitt til þess að hún myndi finnast. En enginn hringdi og enginn sendi tölvupóst.

Viss um að hann sá Amy

Í desember 1998 hringdi Kanadamaðurinn David Carmichael í fjölskylduna. Hann hafði þá nýlokið við að horfa á þátt af „America‘s Most Wanted“ sem fjallaði um hvarf Amy. Hann sagðist vera þess fullviss að hann hefði séð Amy þegar hann var í fríi á Curacao í ágúst 1998. Hún hafi verið á gangi með tveimur mönnum á Porto Marie ströndinni. „Hún virtist hrædd, það var eins og hún ætlaði að segja eitthvað þegar annar maðurinn fékk hana til að ganga áfram og gaf mér illt augnaráð,“ sagði hann í samtali við People. Hann var yfirheyrður og gat lýst húðflúri Amy í smáatriðum. Þegar lögreglan sýndi honum mynd af Allister „Yellow“ Douglas var Carmichael viss um að það væri annar mannanna sem hann sá á ströndinni. FBI sendi menn til Curacao á nýjan leik til að leita að Amy en hún fannst ekki.

Játning lífeyrisþegans

Þrjú ár liðu og Bradley-fjölskyldan reyndi að sætta sig við að hún myndi líklegast aldrei fá að vita hvað varð um Amy. Þá hafði William Hefner samband við hana í gegnum vefsíðuna. Hann sagðist þurfa að játa svolítið. Hann sagðist vera nýfarinn á eftirlaun frá bandaríska hernum og þyrfti ekki að óttast afleiðingar játningar sinnar. Hann sagðist hafa farið á vændishús í Curacao í janúar 1999 þegar herskipið, sem hann var á, lá þar í höfn. Þar hitti hann tvo karla og konu. Um leið og karlarnir yfirgáfu herbergið horfði konan í augu hans og sagði: „Þeir eru með pappírana mína og ég kemst ekki frá eyjunni.“

Fjölskyldan óskaði eftir upplýsingum. Mynd:FBI

Hefner sagði að hún hafi sagt nafn sitt og sagt honum að hann mætti ekki gleyma því: „Ég held að hún hafi sagst heita Amy Bratley, með T en ekki D.“ Þegar annar mannanna kom aftur þagnaði hún. Hefner sagðist ekki hafa þorað að segja frá þessu fyrr af ótta við að verða refsað innan hersins. FBI sendi strax lögreglumenn til Curacao en þeir fundu aðeins brunarústir, vændishúsið var nýbrunnið.

Sást á salerni

2005 hafði Judy Maurer samband við FBI og sagðist hafa séð Amy á almenningssalerni á Barbados. Hún sagði að kona og þrír menn hafi komið inn á salernið og að konunni hafi verið hótað með „einhverjum“ ef hún stæði ekki við samninginn. Mennirnir fóru að sögn Maurer á salernið og þá sagðist konan heita Amy og vera frá Virginíu. Meira náði hún ekki að segja áður en mennirnir komu aftur og tóku hana með sér. FBI yfirheyrði fjölda fólks á Barbados og birti teikningar af mönnunum en það leiddi ekki til neins árangurs við rannsókn málsins.

Teikningin sem FBI birti. Mynd:FBI

Tölvupósturinn

Síðar þetta sama ár fékk Bradley-fjölskyldan tölvupóst frá nafnlausum sendanda og er óhætt að segja að fjölskyldunni hafi brugðið mjög í brún. Í viðhengi við póstinn var skjáskot af kynlífsauglýsingu. Á myndunum er kona sem er nefnd „Jas“ og er hún aðeins í nærfötum. Þrátt fyrir að „Jas“ sé með sítt og hrokkið hár líkist hún Amy mjög. Fjölskyldan sendi tölvupóstinn til FBI sem greindi myndirnar og sagði næstum öruggt að það sé Amy sem er á þeim. FBI tókst ekki að komast að hver sendi póstinn eða hvar myndirnar voru teknar. Auglýsingin fannst á netinu en hún sýndi vændiskonu sem starfaði í Karíbahafi. Nánast um leið og FBI fann auglýsinguna var henni eytt.

Önnur myndin sem var send í tölvupósti. Mynd:FBI
Hin myndin sem var send í tölvupósti. Mynd:FBI

Staða málsins hefur ekki breyst neitt síðan, Amy er ófundinn og ekki vitað hvort hún er lífs eða liðin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hér á aldrei að hafa jólatréð – Fallegasti staðurinn getur verið sá hættulegasti

Hér á aldrei að hafa jólatréð – Fallegasti staðurinn getur verið sá hættulegasti
Pressan
Fyrir 2 dögum

Albatrosinn Wisdom er 74 ára og nýbúin að finna sér nýja maka og verpa enn einu sinni

Albatrosinn Wisdom er 74 ára og nýbúin að finna sér nýja maka og verpa enn einu sinni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skógarbjörn varð 58 ára föður og afa að bana í furðulegu slysi

Skógarbjörn varð 58 ára föður og afa að bana í furðulegu slysi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta áttu aldrei að geyma í fataskápnum

Þetta áttu aldrei að geyma í fataskápnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði