Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að búið sé að stöðva dreifingu á vörum frá verksmiðjunni. Á meðal þeirra hráefna sem fyrirtækið notaði við framleiðslu íssins voru mjólkurduft frá Nýja-Sjálandi og mysuduft frá Úkraínu.
Sky News hefur eftir Stephen Griffin, veirufræðingi við University of Leeds, að ekki þyrfti að örvænta vegna þessara frétta. „Það er líklegt að þetta hafi borist úr manneskju og án þess að vita allt um þetta í smáatriðum þá tel ég líklegt að þetta sé einangrað tilfelli.“
Hann sagði jafnframt að auðvitað væri ekki ásættanlegt að veiran hafi borist í ísinn og það sé auðvitað áhyggjuefni en líklega sé þetta tengt verksmiðjunni sjálfri og hreinlæti í henni. Hann sagði að kuldinn, sem ísinn var geymdur í, og það að hann innihaldi fitu geti skýrt af hverju veiran lifði af. „Við þurfum líklega ekki að óttast að sérhver ísbiti innihaldi skyndilega kórónuveiruna,“ sagði hann.
Allir 1.662 starfsmenn verksmiðjunnar voru settir í sóttkví og sýni tekin úr þeim.
Yfirvöld segja að verksmiðjan hafi framleitt 4,836 kassa af ís með kórónuveiru. 2.089 þeirra voru enn í verksmiðjunni þegar smitið uppgötvaðist. Af þeim 2.747 kössum, sem höfðu verið sendir út á markaðinn, voru 935 í Tianjin og 65 höfðu verið seldir á mörkuðum.