Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að 45% þess starfsfólks á gjörgæsludeildum sem tók þátt í rannsókninni hafi náð læknisfræðilegum viðmiðum þess að glíma við áfallastreituröskun, mikinn kvíða eða þunglyndi og ofneyslu áfengis.
13% sögðust hafa glímt við endurteknar hugsanir um að þeir væru „betur komnir dánir“ eða um að skaða sjálfa sig á undanförnum tveimur vikum.
Rannsóknin, sem hefur verið birt í Occupational Medicine journal, náði til 709 heilbrigðisstarfsmanna á 9 gjörgæsludeildum víða um England í júní og júlí 2020. Rannsóknin hefur ekki enn verið ritrýnd.
Niðurstöður hennar benda einnig til að andleg líðan hjúkrunarfræðinga hafi verið verri en andleg líðan lækna í fyrstu bylgju faraldursins. Neil Greenberg, prófessor og aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að þessi andlegu áhrif faraldursins á starfsfólk gjörgæsludeilda séu „mjög líkleg til að skaða getu þeirra til að veita umönnun í hæsta gæðaflokki“. Hann sagði að há dánartíðni af völdum COVID-19 og áskoranir í tengslum við samskipti við ættingja hinna látnu og umönnun sjúklinga á lokaspretti lífsins, vegna takmarkana á heimsóknum á sjúkrahúsin, hafi verið meðal þess sem hafði mest áhrif á starfsfólkið.