Lengi vel var talið að hlýnun jarðarinnar myndi halda áfram í nokkrar kynslóðir, jafnvel þótt það tækist að draga mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nú telja vísindamenn að ef okkur tekst að koma losuninni niður í núll þá muni hlýnunin ná jafnvægi á nokkrum áratugum.
Rúmlega 100 ríki hafa heitið því að vera búin að gera losun sína hlutlausa fyrir 2050. Þá eiga þau ekki að losa meira koldíoxíð út í andrúmsloftið en er tekið úr því, til dæmis með því að rækta upp skóga. Meðal þeirra sem hafa heitið þessu eru Bretland, Japan og Evrópusambandið og Bandaríkin munu fljótlega bætast í þennan hóp en Joe Biden, verðandi forseti, hefur heitið því. The Guardian skýrir frá þessu.
Michael Mann, loftslagsvísindamaður við Pennsylvania State háskólann, segir að ef þetta markmið náist á heimsvísu muni yfirborðshiti hætta að hækka og hækkun meðalhita muni stöðvast á nokkrum áratugum.