Bræðurnir ólust upp við mikla fátækt í Aþenu. Synir ólöglegra og fátækra innflytjenda frá Nígeríu. Bræðurnir aðstoðuðu foreldra sína við að afla fjár til heimilisins með því að stunda götusölu. „Við seldum ýmislegt, úr, handtöskur, sólgleraugu, lyklakippur, geisladiska, DVD. Bara allt sem við náðum í,“ sagði Giannis í samtali við BBC 2019.
Þessar aðstæður mótuðu hann mikið en þessi 26 ára körfuboltamaður var kjörinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar síðustu tvö leiktímabil. „Bakgrunnur minn er ástæðan fyrir vinnusemi minni. Ég sá foreldra mína leggja hart að sér á hverjum degi til að sjá fyrir okkur. Það var ótrúlegt og hefur setið í mér síðan,“ sagði hann við BBC.
Giannis var fimmtándi í háskólavalinu 2013 en í því velja liðin í NBA-deildinni sér leikmenn úr háskólaliðunum. Hann hefur heldur betur dafnað síðan hann fór í atvinnumennskuna og er nú verðmætasti leikmaðurinn og sá launahæsti, raunar sá launahæsti í sögunni.
Samningurinn við Milwaukee Bucks færir honum að sögn 228 milljónir dollara. Gróflega útreiknað fær hann sem nemur um 650.000 íslenskum krónum á klukkustund í laun.