Plánetan, sem hefur fengið heitið TOI-561b, er tæplega hálfan jarðarsólarhring að ljúka einni hringferð um stjörnuna sína. „Á hverjum jarðardegi fer þessi pláneta tvo hringi um stjörnuna sína,“ segir Stephen Kane, stjarneðlisfræðingur og meðhöfundur rannsóknarinnar, í tilkynningu sem University of California, Riverside sendi frá sér um rannsóknina. CNN skýrir frá þessu.
Sökum þess hversu nálægt plánetan er stjörnu sinni er ansi heitt á henni en yfirborðshitinn er um 1.730 gráður.
Plánetan fannst með aðstoð TESS-verkefnis bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA en því var hleypt af stokkunum 2018. Í verkefninu felst að hlutar himingeimsins eru kannaðir reglulega og fylgst með nálægum stjörnum til að sjá hvort plánetur séu á braut um þær.