Raunar fundu vísindamenn á vegum samtakanna tvo dverggíraffa. Þann fyrri rákust þeir á í Murchison Falls þjóðgarðinum í Úganda en hinn á sveitabæ í Namibíu.
Gíraffarnir hafa fengið nöfnin Gimli og Nigel. Eins og aðrir gíraffar eru þeir með langan háls en hins vegar eru fætur þeirra mun styttri en hjá öðrum gíröffum. Þeir þjást báðir af erfðafræðilegum sjúkdómi sem veldur dvergvexti og öðrum truflunum á þroska. Þetta er mjög sjaldgæft hjá dýrum, sérstaklega villtum dýrum. Hjá húsdýrum kemur þetta oftar fyrir og þá vegna innræktunar og þar með skorts á erfðafræðilegum fjölbreytileika.
Gíraffar eru hæstu spendýrin en meðalhæð fullvaxinna dýra er á milli 4,3 og 6,1 metri.