Í kjölfar lyfjahneykslisins hafa rússnesk yfirvöld sagt að nú verði tekið til í kerfinu en eitthvað virðist það ganga illa, að minnsta kosti er auðvelt að draga þá ályktun af nýlegum atburði.
Í desember fór rússneska meistaramótið í skíðaskotfimi fram í Izhevsk. Lyfjaeftirlitsmenn tilkynntu skyndilega komu sína á mótið og þá bar það til tíðinda að 33 ungir þátttakendur ákváðu skyndilega að hætta við þátttöku. Inside The Games skýrir frá þessu en miðillinn fylgist náið með ólympískum íþróttagreinum.
Eftir frétt miðilsins staðfesti rússneska lyfjaeftirlitið, Rusada, að 12 ungar konur og 21 ungur karlmaður hafi hætt við þátttöku og að verið sé að rannsaka málið. Rússneska skíðaskotfimisambandið hefur sömu sögu að segja og segir forseti þess, Viktor Maigourov, að þetta verði ekki látið óátalið.