Ástæðan fyrir að samlokurnar eru teknar af bílstjórunum er að samkvæmt reglum er bannað að flytja kjöt og mjólkurvörur til ESB-ríkjanna. Bresk yfirvöld hafa því hvatt Breta til að „nota, borða eða losa sig við“ allt slíkt áður en komið er að landamærunum.
Mirror segir að á upptökum sem hollenskar sjónvarpsstöðvar hafi sýnt sjáist tollverðir skýra ökumönnum frá þessum reglum um leið og þeir taka samlokurnar af þeim. Þetta átti sér stað í ferjuhöfninni í Hook of Holland. Tollverðir segja ökumönnum að nú megi þeir ekki lengur koma með matvæli á borð við kjöt, ávexti, grænmeti og fisk til meginlandsins.
Þegar einn tollvörður var spurður hvort hann gæti ekki bara tekið skinkuna og skilið brauðsneiðarnar eftir var svarið: „Nei, það verður að leggja hald á allt. Velkomin í Brexit, herra. Mér þykir þetta leitt.“
Reglurnar gilda ekki um flutning matvæla á milli aðildarríkja ESB og að auki ná þær ekki til Íslands, Andorra, Liechtenstein, Noregs, San Marino og Sviss.