Gripið var til þessara aðgerða í kjölfar árásarinnar á bandaríska þinghúsið í síðustu viku. Þar voru margir af leiðtogum QAnon í áberandi hlutverkum. „Þessir aðgangar voru helgaðir því að deila hættulegu efni tengdu QAnon í miklum mæli,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Twitter.
Stuðningsfólk QAnon hefur notað samfélagsmiðla í miklum mæli til að breiða út samsæriskenningar. Meðal annars um að Donald Trump berjist leynilega gegn alþjóðlegu neti barnaníðinga. Í hópi þessara barnaníðinga eru að sögn QAnon margir áhrifamenn í Demókrataflokknum og Hollywoodstjörnur.
Twitter tilkynnti á föstudaginn að lokað verði á aðganga sem deila efni frá QAnon. Miðillinn hefur einnig lokað á marga áberandi aðila á hægri væng bandarískra stjórnmála sem hafa kynt undir samsæriskenningum og kenningum QAnon.