Talið er að aparnir hafi smitast af starfsmanni sem var með veiruna en var einkennalaus. Rannsóknir á saur apanna hafa sýnt að einn þeirra er örugglega smitaður. Þrír hafa sýnt sjúkdómseinkenni og talið er að allir átta séu smitaðir.
„Górillur lifa saman í hóp í dýragörðum og í náttúrunni og við verðum að reikna með, eins og við gerum við fjölskyldur fólks, að allir í fjölskyldunni séu smitaðir,“ segir í tilkynningu frá dýragarðinum. Einnig segir í henni að engin af górillunum virðist vera alvarlega veik og að reiknað sé með að þær nái sér allar að fullu.
Ekki er vitað hvaða sjúkdómseinkenni munu gera vart við sig hjá þeim eða hvaða áhrif veiran mun hafa á þær. Áður hafa ljón og tígrisdýr í dýragarði í New York greinst með veiruna og í Barcelona greindust fjögur ljón með hana. Veiran hefur einnig borist í ketti og hunda og minka.