Ástæðan fyrir þessu er að alríkislögreglan FBI telur hættu á að vopnaðir hópar muni mæta til að mótmæla embættistöku Joe Biden. Raunar telur FBI hættu á að slíkir hópar muni láta að sér kveða um allt land.
Í Washington D.C. verður áhersla lögð á að koma í veg fyrir að atburðir, eins og áttu sér stað í síðustu viku þegar múgur réðst inn í þinghúsið, endurtaki sig. FBI telur hættu á að vopnaðir hópar kunni að hafa í hyggju að láta að sér kveða næstu daga og þann 20. janúar þegar Biden verður settur í embætti.
ABC News segir að samkvæmt minnisblaði frá FBI þá sé fylgst náið með vopnuðum hópum sem hafi í hyggju að halda til höfuðborgarinnar á laugardaginn. Hóparnir hafa varað við „stórri uppreisn“ ef reynt verði að koma Donald Trump úr Hvíta húsinu. Hóparnir hafa einnig hvatt til þess að ráðist verði á þinghús allra 50 ríkja Bandaríkjanna þann 20. janúar.
Það er heimavarnarráðuneytið sem ber ábyrgð á öryggismálum í tengslum við embættistöku Biden. Chad Wolf, starfandi heimavarnarráðherra, tilkynnti í gær að hann láti af embætti. CNBC segir að í kjölfar árásarinnar á þinghúsið hafi Wolf lýst yfir vanþóknun sinni á þeim og sagt þetta vera „hörmulega og fráhrindandi“ atburði.
Í gær var tilkynnt að 15.000 þjóðvarðliðar verði sendir til Washington D.C. til öryggisgæslu í tengslum við embættistöku Biden.